Pælingar Steina Pjé

01 júní, 2006

Hvannadalshnjúkur

Á morgun föstudag legg ég upp í ferðalag ásamt nokkrum Akureyringum og er stefnan tekin austur í Skaftafell. Á laugardag verður síðan gengið á Hvannadalshnjúk og er veðurspáin eins og best verður á kosið. Snjóflóðahætta mun vera liðin hjá og blöndumst við hóp frá Reykjavík, alls um 150 fara á hnjúkinn.

Tap framsóknarmanna.

Við hlutum ekki náð hjá nægilega mörgum framsóknarmönnum í kosningum til bæjarstjórnar. Það er ekki það að framsóknarmönnum hafi fækkað, þeir hafa fært sig undir önnur nöfn en eru framsóknarmenn eigi að síður. Svo gætu þetta verið skýr skilaboð til mín sem nú í fyrsta sinn fer í framboð og axla ég alla ábyrgð á þessu tapi og lofa því að gera þetta aldrei aftur. En ég verð framsóknarmaður áfram og fel mig ekki bak við önnur nöfn.

14 maí, 2006

Húni II í slipp.

Nú er verið að skvera Húna II og gera hann klárann fyrir sumarið. Skrokkurinn er fallegur og þarf ekki stóra aðgerð. Síðan mun báturinn fara að sjást á ferðinni og töluvert er spurst fyrir um ferðir sumarsins. Við munum sigla á sjómannadaginn, á safnadaginn 9. júlí og fleiri daga.

08 maí, 2006

Þvertrúarleg skátaráðstefnaÍ dag lauk þvertrúarlegri ráðstefnu skáta sem bar nafnið "2nd World Scout Interreligious Symposium" sem við feðgar sátum. Myndin hér að ofan var tekin á opnunarhátíðinni en hún er fengin að láni úr frétt á vefsíðu WOSM.

03 maí, 2006

Ferð til Taívan

Það má teljast kæruleysi fyrir mann í framboði að fara alla leið til Taiwan í stað þess að vera heima að safna atkvæðum. En ferðalagið tengist skátastarfi og erum við feðgar á leið á ráðstefnu. Þið getið fylgst með ferðaqlaginu á annálnum hans Péturs B.

Frásagnir á annál Péturs
Myndir á flickr-síðu Péturs

20 apríl, 2006

Gleðilegt sumar

Sumarið er komið, fögnum því. Í dag var messa í Akureyrarkirkju þar sem skátar endurnýjuðu skátaheitið. Þetta var góð stund og á eftir var súpa og brauð í skátaheimilinu.

Hér eru tvær vorvísur efir föður minn Pétur B. Jónsson.

Líður senn að sumar málum,
sjatnar fönn og lengir dag.
Glæðist von í sjúkum sálum
við sól og vor og bættan hag.

--

Fjöll og tanga sumarsól
senn að vanga lætur.
Vetur stranga úr kalakakjól
klæða langa nætur.

16 apríl, 2006

AÐALFUNDUR

Aðalfundur Hollvina Húna ll verða um borð í bátnum mánudaginn 24. apríl nk. Klukkan 20:00.

Venjuleg aðalfundarstörf hefjast eftir að búið er að sleppa og leggja frá því er nauðsynlegt að mæta stundvíslega.

26 mars, 2006

Afhending Húna ll.

Ræða flutt við afhendingu Húna ll til Iðnaðarsafnsins á Akureyri
Sunnudaginn 26. mars 2006 klukkan 14:00

Valgerður Sverrisdóttir Iðnaðarráðherra,
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri Akureyrar,
Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður stjórnar Iðnaðarsafnsins,
Tryggvi Gunnarsson skipasmíðameistari og
Þorvaldur Hreinn Skaftason skipstjóri og bjargvættur Húna ll.
Aðrir virðulegir og góðir gestir.

Sú var tíð að menn hrintu úr vör knerri sínu og sigldu því til Íslands. Hér settust þeir að og byggðu sér bústað. En alla tíð höfum við á þessu skeri í norðurhöfum mátt treysta á að knörrin okkar væru þannig byggð að þau stæðust þau óblíðu veður sem hér geta eins og hendi sé veifað skollið á.

Hér í dag erum við um borð í skipi sem hefur þjónað eigendum sínum vel, staðist þau óblíðu veður sem hér geysa og borið að landi ótrúlegan afla, skaffað mörgum fjölskyldum og aukið hagsæld þeirra.

Hér í dag erum við um borð í skipi sem var hannað og smíðað hér á Akureyri og vitnar um þann hagleik og handverk sem Eyfirskir smiðir réðu yfir skömmu áður en að smíði tréskipa var aflögð.

Smíði þessa skips hófst árið 1962 og var afhent kaupendum á vordögum 1963. Tryggvi Gunnarsson skipasmíðameistari sem hér er með okkur í dag teiknaði og stjórnaði smíði þessa skips en hann var yfirverkstjóri hjá skipasmíðastöð KEA en faðir hans, Gunnar Jónsson var ráðinn til KEA um 1940. Halla ég varla á nokkurn þótt ég fullyrði að þeir feðgar hafi átt stærstan þátt í þeirri viðurkenningu sem skipin frá KEA hlutu.

Húni ll var í upphafi mældur 132 brúttótonn, 25.56 metrar að lengd og 6.36 metrar á breidd, er smíðaður úr Eik og furu. Kaupendur voru þeir Björn Pálsson Alþingismaður frá Löngumýri í Húnavatnssýslu og Hákon Magnússon skipstjóri. Skipið var gert út frá Skagaströnd þar til það var selt til Hornafjarðar og hét um tíma Haukafell og síðar Sigurður Lárusson. Allir eigendur skipsins hafa borið mikið lof á það, skipið hafi ætíð reynst vel og farið vel með áhöfn þess.

Sú var tíð að þegar að skip höfðu þjónað sinn tíma fengu þau þann vafasama heiður að verða eldi að bráð. Sá sem hér talar hefur jafnvel tekið þátt í því að draga aflagða báta á áramótabrennu. Þannig var einmitt komið fyrir þessu skipi þegar að bjargvættur þess Þorvaldur Hreinn Skaftason bjargaði því. Ég geri mér grein fyrir því að til verksins þurfti meira en venjulegan kjark og bjartsýni. Þorvaldur hefur hvoru tveggja og sannar að kjarkmenn sem ganga fram til þess verks sem þeir ætla sér ná árangri. Ég veit einnig að baki hans stendur trú kona, Erna Sigurbjörnsdóttir. Sannast þar að sá á styrk að stríða er styður konu hönd.

Þá var skipið vélarlaust og því miður hafði gamla STORK 450 hestafla vélin sem var sett í bátinn í upphafi seld erlendis. Í desember 2005 skoðuðu þeir Brynjar Ingi Skaptason skipaverkfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson skipasmiður og skipaskoðunarmaður bátinn og vil ég vitna í niðurlag skýrslu þeirra þar sem þeir segja.
“Í heild má segja að Húni ll. Líti vel út. Þetta er vel viðað skip og vandað að allri gerð og hefur staðist álag vel. Okkur sýnist skipið gott til varðveislu”.

Það var á vordögum fyrir tæpu ári síðan að Þorvaldur sá er bjargaði skipinu kom með þá hugmynd að skipið færi til Akureyrar, þar ætti það heima og vitnaði um þann hagleik sem þar var í hávegum er skipið var smíðað.

Strax kom nokkur hópur að þessu máli og áhugi verulegur fyrir því að festa kaup á skipinu og færa Iðnaðarsafninu að gjöf. Hópur sá sem nú nefnist Hollvinir Húna kusu til verksins þá Konráð Alfreðsson, Lárus List, Kristján Vilhelmsson og þann er hér stendur. Síðar kom inn í hópinn Þorsteinn E Arnórsson frá Iðnaðarsafninu.

Margir komu einnig að verkinu með aðstoð við okkur og varasamt er fyrir mig að nefna nöfn þar, því hætt er við að minni mitt mundi bregðast og ég gleyma einhverjum. Ég vil þó þakka sérstaklega Þórgný Dýrfjörð sem vann fyrir okkur alla pappírsvinnu.

Það er skemmst frá því að segja að fjárframlög frá KEA, Akureyrarbæ og Fjárveitingarnefnd ríkisins dugðu til kaupa á þessu skipi. Þökk sé þeim sem höfðu þessa framsýni og þor að leggja fé til kaupanna. Þar sannaðist að gott er að eiga góða að.
Skipið sem nú verður afhent Iðnaðarsafninu á Akureyri skuldlaust og ánn allra kvaða er í góðu ásigkomulagi og eftir slipptöku nú í apríl verður skipið komið hér aftur að bryggju og mun gleðja og fræða þá sem það augum berja.

Svo grunnhygginn er ég ekki að halda að það sé lítið verk og löðurmannlegt að halda þessu skipi í góðu standi og sjá um að rekstur þess verði í lagi. En svo óbilandi trú hefi ég á þeim sem hér búa að það hvarlar ekki að mér að þetta gangi ekki upp. Veit ég að hugur er í hollvinum Húna að koma að því að gera reksturinn í þá veru að hann íþyngi ekki Iðnaðarsafninu.

Hér hjá okkur í dag er ungur drengur, fulltrúi fyrir komandi kynslóðar, hann heitir Tryggvi Gunnarsson og er afkomandi skipasmiða langt aftur í ættir. Ég bið hann nú að aðstoða afa sinn, Tryggva Gunnarsson höfund þessa skips að afhenda Sigrúnu Björk Jakobsdóttur stjórnarformanni Iðnaðarsafnsins afsal fyrir skipi þessu og
frumteikningar af smíð þess.
Við skulum svo öll hrópa ferfallt húrra fyrir þessum merka áfanga og þannig staðfesta einnig óskir okkar og vonir um áframhaldandi farsæld
Húna ll.

Ath: Tryggvi Gunnarsson jr. var veikur og því kom ungur drengur Björn í hans stað.

Þorsteinn Pétursson